Fara í efni
Fréttir

Núna er rétti tíminn fyrir þetta

Víða eru lauf og annar gróður farin að gulna, líkt og á þessari mynd sem tekin var í septembermánuði…
Víða eru lauf og annar gróður farin að gulna, líkt og á þessari mynd sem tekin var í septembermánuði í Laugardalnum. Mynd/Olga Björt

Fyrir mörgum hefst haustið eftir verslunarmannahelgi, þótt ágústmánuður geti oft verið mjög hlýr og mildur. Hinn reyndi veðurfréttamaður Einar Sveinbjörnsson segir að í 10 daga spá evrópsku reiknimiðstöðvarinnar sé spáð kunnuglegu lægðardragi í háloftunum yfir Íslandi. „Það er bæði skarpara og kaldara en síðustu 10 dagana. Sumarveðráttan hefur verið alveg ágæt norðan- og austanlands síðustu vikuna eða svo og hámakshiti dagsins flesta daga náð um eða yfir 20 stigum.“ Sunnan- og vestanlands hefur þó verið þungbúið í suður- og suðvestanáttinni. Þessu fylgjast t.d. gróðurbændur vel með og eru farnir að huga að haustverkum. Garðyrkjufræðingurinn Ólöf Ágústa Erlingsdóttir segir okkur allt um þennan tíma sem framundan er. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Mynd/Olga Björt

Garðykjurfræðingurinn Ólöf Ágústa segir að núna sé t.a.m. besti tíminn til að gróðursetja haustlyngið, plöntur sem séu sígrænar og fallegar inn í veturinn. „Núna er tíminn þar sem fólk hugar að gróðrinum sem er að framanverðu við heimilin og sumarhúsin; það sem tekur á móti þegar fólk kemur að. Margar plöntur eru fallegar fram í frostið þegar bakgarðurinn fer smám saman í dvala.“

Margir fari um þetta leyti að búa sig undir veturinn og eru jafnvel með fallega palla og yfirbyggðar svalir sem sannarlega lengja sumarið. Ólöf Ágústa hvetur fólk til að kaupa haustlauka núna til að planta á góðum stöðum áður en fyrstu frostnæturnar koma. „Fallegu blómin sem við sjáum blómstra á vorin eru einmitt laukarnir sem settir eru niður á haustin. Einnig er þetta rétti tíminn til að bera lífrænan áburð, s.s. hænsnaskít eða þörungamjöl, á mold umhverfis gróðurinn. Maðkurinn sér um að vinna það fyrir okkur í moltu yfir veturinn. Gróðurinn elskar það.“

Garðyrkjufræðingurinn Ólöf Ágústa Erlingsdóttir. 

Þegar við hugsum til vorsins þá er svo dásamlegt þegar fyrstu vorblómin byrja að kíkja upp úr moldinni og gefa tilverunni lit eftir gráma vetrarins. „Það eru nokkur atriði sem er ágætt að hafa í huga þegar laukunum er valinn staður. Til dæmis er tilvalið að planta þeim í beð með fjölærum plöntum. Það þarf að vera ákveðið bil á milli fjölærra plantna til að þær hafi pláss til að njóta sín og þetta bil er kjörið að nýta undir haustlaukana. Þeir lífga upp á beðið þegar fáar fjölærar plöntur eru í blóma og þegar laufin fara að fölna hverfa þau inn í fjölæru brúskana eftir því sem þeir vaxa upp. Runnabeð eru ekki eins hentug þar sem runnarnir breiða úr sér og gætu því fjölærir laukar farið að vaxa upp úr greinaflækju eftir nokkur ár. Það eru helst lágvaxnir laukar eins og krókusar og vetrargosar sem myndu henta þar.“

Fyrir lauffall á haustin draga flest lauftré blaðgrænuna úr blöðunum og senda hana niður í rótina til geymslu. Mynd/Olga Björt

 

Mikið úrval er af haustlaukum í Garðheimum. Hér er aðeins örlítill hluti. Mynd/Garðheimar. 

Flestar laukplöntur kunni best við sig á sólríkum stað. Krókusar og túlipanar opni ekki blómin í skugga. Páskaliljur geti vel vaxið í nokkrum skugga en þrífist þó betur sólarmegin. „Það er líka mikilvægt að jarðvegurinn sé ekki of blautur og klesstur. Krókusunum er sérstaklega illa við að standa í mikilli bleytu, en vel framræstur, næringarríkur jarðvegur er bestur fyrir allar tegundir haustlauka.“