Fara í efni
Fréttir

Litríkt og notalegt sumarhús við Meðalfellsvatn

Dásamlega litríkt og hlýlegt allt hjá Rut og Gísla í sumarhúsinu þeirra.
Dásamlega litríkt og hlýlegt allt hjá Rut og Gísla í sumarhúsinu þeirra.

Við Meðalfellsvatn í Kjós stendur sumarbústaður í eigu Rutar Ingólfsdóttur og Gísla Más Ágústssonar. Húsið, sem er 38 fermetrar, keyptu Rut og Gísli Már fyrir rúmu ári síðan, en staðsetningin hefur verið í fjölskyldu hennar síðan amma hennar og afi keyptu bústað þar árið 1977, þegar Rut var tveggja ára. Síðan þá hefur nánast hver einast fermetri verið málaður og litadýrðin er allsráðandi hjá þeim. 

Rut og Gísli Már á pallinum með fallegt kvöldsólarskin í baksýn. 

„Við völdum þennan stað því hann hefur verið hluti af mínu lífi síðan ég var tveggja ára, þegar amma og afi keyptu hús þar. Í dag eru margir fjölskyldumeðlimir sem eiga bústað við Meðalfellsvatn. Þetta er staðurinn þar sem maður fer og hittir fólkið sitt,“ segir Rut stolt. Aðspurð segir hún það besta við að eiga bústað sé að eiga afdrep í sveitinni. „Úti í náttúrinni þar sem maður hleður batterýin!“ Svo finnst henni dásamlegt að hafa fólkið sitt í nágrenninu og eiga allar samverustundirnar með þeim.

Náttúrfegurð, maður góður! 

Þetta verður ekki mikið notalegra.

„Mitt áhugamál er að breyta og bæta og þarna fæ ég alveg allsherjar útrás við það, enda held ég að ég sé búin að mála allt sem hægt er að mála í litla kotinu okkar,“ segir hún og hlær dátt. „Við höfum málað allt hátt og lágt inni og úti, breytt aðeins skipulaginu inni og í augnablikinu erum við að taka baðherbergið í gegn, auk þess sem við höfum fjarlægt nokkrar kerrur af trjám og dundað mikið við garðinn.“ Rut og Gísli búa í Hafnarfirði og finnst lítið mál að bruna í Kjósina, enda eru þau þar allan ársins hring og nánast allar helgar og þegar tækifæri gefast til. Þau vinna bæði hjá Veritas; hún í mötuneytinu og hann er umsjónarmaður fasteigna. 

Rúm sem Gísla fannst notalegt að leggja sig í á pallinum, en er orðið að „salat-rúmi“ í dag. 

 

Það er farið að rökkva og þá nýtur útilýsingin sín vel. 

Þau eru þarna allan ársins hring að búa til kósý.

Það getur tekið tíma að ákveða rétta litinn! 

 

Sérlega glæsilegt og notalegt.