Fara í efni
Fréttir

Langar þig að byggja sumarhús?

Mynd fengin að láni úr grein sem er hér á síðunni sem heitir
Mynd fengin að láni úr grein sem er hér á síðunni sem heitir "Rómantík með Pönk-ívafi í Dagverðardal"

Hvað þarf að hafa í huga þegar ákveðið er að fara í að byggja bústað?

Hvar viltu vera? Það er mikilvægt að gera góðan lista yfir það sem skiptir þig máli varðandi staðsetningu. Ertu að leita að útsýni, viltu vera við vatn eða viltu vera í skjólsælum reit umvafin trjágróðri? Viltu vera í þéttu skipulögðu sumarhúsahverfi eða viltu vera eins mikið frá öðrum og hægt er að koma við? Viltu hafa stutt í afþreyingu s.s. sundlaug og golf o.s.frv.? Viltu hafa stutt í verslun og þjónustu? Hve langt má bústaðurinn vera frá heimilinu þínu, hvað tekur það þig langan tíma að keyra þangað? Þetta eru allt spurningar sem gott er að hafa í huga þegar ákveðið er að fara í að byggja bústað.

Nú þegar búið er að ákveða hvar þú vilt vera svona gróflega, þá þarf að finna lóð sem hentar og það þarf að ákveða hvað má lóðin kosta? Hve stór þarf lóðin að vera? Er aðgengi að heitu og köldu vatni, og rafmagni? Er búið að gera vegi að lóðinni? Er komið sumarhúsafélag á svæðið og er komið rafmagnshlið inná svæðið (þetta er ekki nauðsynlegt en fleiri og fleiri gera kröfu um heft aðgengi inná skipulögð sumarhúsasvæði, til að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðilar séu inná svæðinu).

Þegar öllum spurningum hér fyrir ofan hefur verið svarað og þú búin/n að taka ákvörðun og kaupa lóð, þá hefst framkvæmdin og henni má skipta í þrjá þætti; jarðvinna og gróðursetning, undirstöður og tengingar og síðan uppbygging á húsinu sjálfu.

Jarðvinna og gróðursetning, þetta er það sem fyrst þarf að huga að, þegar lóðin er keypt. Það er gott að vera búin að gera sér grein fyrir hversu mikil jarðvegsskipti þurfa að eiga sér stað. Hve djúpt þarf að grafa og hve marga rúmmetra af efni þarf að fá til að gera púða undir bústaðinn, ef hann er ekki þegar til staðar. Það getur verið kostnaðarsamt að jarðvegsskipta, og gott er að vera búin að kynna sér þann kostnað vel, en þessi kostnaður getur hlaupið á milljónum. Varðandi gróðursetningu þá er alltaf góður kostur að tala við landslagsarkitekt eða aðila sem hefur mikla þekkingu á gróðuruppbyggingu og samsetningu. Gott er að kynna sér ríkjandi vindáttir á staðnum, því það er nú einu sinni þannig að lognið er alltaf á hreyfingu á Íslandi og þá getur vel samsettur veggur af trjám gert mikið. Það er oft betra að vera búin að undirbúa vel uppbyggingu lóðar snemma í ferlinu, þar sem það tekur tíma fyrir gróður að ná sér á strik og mikilvægt að velja réttu plönturnar sem geta lifað í umhverfinu og jarðveginum sem er á staðnum.

Við ræðum síðar við jarðvinnuverktaka, og aðila sem getur gefið góð ráð varðandi gróður uppbyggingu á sumarhúsalóð, fylgist með við ætlum að setja inn greinar með fróðleik sem varðar framkvæmdina að byggja sumarhús.