Félagsbústaðir vinsælir í vetrarfríinu
Vetrarfrí grunnskóla hefst í dag og foreldrar sem hafa þann vinnulega sveigjanleika að taka frí á sama tíma hafa gjarnan tryggt sér dvöl í félagsbústað eða orlofsíbúð. Félagsbústaðir eru um allt land og ýmist í eigu stéttarfélaga, sveitarfélaga (fyrir starfsfólk) og ýmissa fyrirtækja eða starfsmannafélaga þeirra.
Samkvæmt vef Þjóðskrár eru nú skráð alls 14.707 sumarhús um allt land. Við höfðum samband við Þjóðskrá og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að fá mögulegar upplýsingar um hversu hátt hlutfall af því eru skráðir félagsbústaðir, en þau hafa því miður ekki þær upplýsingar.
Líklega höfum við flest einhvern tímann dvalið í félagsbústað og eigum gamlar og nýjar góðar minningar þaðan. Okkur hjá Sumarhúsinu langar að kafa aðeins ofan í þennan hóp húsa, félaga og dveljenda og við tökum fagnandi á móti öllum frásögnum og ábendingum. Við vitum að fjölmargir munu nýta slík hús núna í vetrarfríi grunnskólanna og svo styttist líka í páskana sem er mjög vinsæll tími fyrir slíka iðju.