Fara í efni
Fréttir

Skandinavísk kósíheit í Úthlíð

Verulega kósí í 50 fermetra bústaðnum.
Verulega kósí í 50 fermetra bústaðnum.

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir og eiginmaður hennar, Valdimar Kristjónsson, búa í Smárahverfinu í Kópavogi ásamt þremur börnum og læðunni sinni. Þau eiga sumarbústað sem hún kallar lítið krúttlegt kot, Sólbakkalón, en það er um það bil 50 fermetrar. Bústaðurinn er í Úthlíð og þau hjónin keyptu hann í vor, en þau höfðu þráð að eignast bústað ansi lengi.

Ingibjörg Lilja ásamt eiginmanninum Valdimar og börnunum á góðri stundu.

„Við vorum ansi opin fyrir öllu Suður- og Vesturlandi til að kaupa bústað. Við vildum hafa þægilega fjarlægð frá Reykjavík svo það væri hægt að skjótast frá, jafnvel þó það væri bara part úr degi. Ég bjó erlendis í mörg ár og saknaði mest trjágróðursins og vildi því hafa umhverfið gróið og þá helst með háum grenitrjám. Maðurinn minn vildi gott útsýni svo það getur verið flókið að samrýma þessar tvær óskir. Við duttum hinsvegar í lukkupottinn þegar við sáum Sólbakkalón fyrst.“ Húsið er umlukið háum og fallegum gróðri en það er búið að grisja aðeins til svo fjölskyldan nýtur þess að sjá Heklu í allri sinni dýrð.

Fjölskyldan hefur notað húsið ansi mikið síðan hún fékk það afhent. „Fyrir mér er fallegasti tíminn genginn í garð, haustið, og ég elska litadýrðina sem fylgir grónum svæðum á þessum tíma. Ég hlakka líka til að vera njóta kyrrðarinnar yfir vetrarmánuðina,“ segir Ingibjörg Lilja. Hún er mannauðsstjóri hjá Rafal, en fyrirtækið er þekkingar- og þjónustumiðstöð rafmagns og fjarskipta. Rafal starfar á breiðu sviði rafiðnaðarins, allt frá virkjunum, flutningi og til dreifiveitna til notenda. Hún er einnig meðstofnandi Orgz, en þar er fyrirtækjum, og þá helst tæknifyrirtækjum, boðið upp á skipulagsdeildarráðgjöf (organizational coaching) sem og leiðtogaþjálfun fyrir stjórnendur.

Svona var húsið að innan áður en tekið var til hendinni.

Ingibjörg Lilja segir að þau hafi keypt húsið af miklu sómafólki sem byggði það í kringum 1988. „Mig langaði að halda í sjarmann og umhyggjuna sem þau höfðu sett í þetta fallega hús. Það var í góðu standi en auðvitað ýmislegt sem mátti alveg hugsa aðeins öðruvísi og panellinn kannski orðin lúinn og gulur. Ég hef mikið dálæti á “Scandinavian hygge” stílnum og hafði hann að leiðarljósi þegar ég innréttaði húsið. Þessi stíll gengur að miklu leyti til að skapa notalega og hlýja stemningu, en ekki að kaupa allt glænýtt. Ég reyndi því að nýta eins mikið og ég gat og í raun keyptum við nánast ekkert nýtt.“

Þau máluðu húsið að innan með fallegum ljós-kremuðum lit, gamla góða spónaparketið var málað hvítt og svo bæsaði húsmóðirinn bita og glugga með fallegum gráleitum tón, en hélt í hlýleikann. Scandinavian hygge gengur mikið út á að vera með mottur, púða, lampa og annað sem skapar hlýleika og notalega stemningu.

Aðspurð segir Ingibjörg Lilja að húsið verði svo tekið í gegn að utan næsta sumar. „Ég ætla að færa heita pottinn úr pottahusinu og nota það fyrir útieldhús og gróðurhús. Eins er ég komin með algjöra ræktunarbakteríu og mig langar mikið að fá mér garð undir kartöflur og rótargrænmeti. Það er fátt sem fær mann til að liða jafn mikið eins og sigurvegara eins og þegar að fræin sem maður sáir gefa af sér fallegt grænmeti. Fyrir utan núvitundina sem það gefur manni,“ segir hún alsæl að lokum.

Það er svo gott að „hygge sig“ í litla krúttlega húsinu.

Baðherbergið í notalegum litum.

Gróið umhverfi og gott skjól.