Fundu loksins draumahúsið á æskuslóðum
Hjónin Njóla Jónsdóttir og Þórarinn Þórarinsson keyptu sumarhús í Fljótshlíð fyrir tveimur árum eftir að hafa verið þar meira og minna í hjólhýsi og höfðu lengi leitað að sumarhúsi til sölu. Sjálf er Njóla fædd og uppalin í Eyvindarmúla í hlíðinni og á rætur að rekja til Vestmanneyja. Þau voru að vonum alsæl með að sjá húsið til sölu, tækifærið og gerðu það að sínu.
Glæsilegt sumarhúsið og umhverfið í fallegu sumarveðri. Jepparnir ekki langt undan, enda elska þau að fara um hálendið.
Njóla og Þórarinn eiga 10 ára brúðkaupsafmæli í ár því eftir tveggja ára samband giftu þau sig í Fljótshlíð. „Ég hef mikla tengingu hér. Ég er alin upp í Eyvindarmúla hér innarlega í hlíðinni ásamt þremur systkinum.Varði mínum grunnskólaárum í Fljóthlíðarskóla og svo á Hvolsvelli,“ segir Njóla, en hún á einnig ættir að rekja til Vestmannaeyja því móðurafi hennar var Binni í Gröf og stór hópur ættingja býr þar. „Það er yndislegt að það er einungis 20 mínútna keyrsla héðan í Landeyjahöfn og þótt ég fari sjaldan á Þjóðhátíð þá elska ég að fara t.d. á goslokahátíðina og bara gaman að geta skellt sér þarna yfir.“ Þórarinn er Grundfirðingur en einnig með tengingar við Grindavík og Hafnir og var í Njarðvíkurskóla á sínum tíma.
Hér sést hvernig húsið var á litinn áður en þau máluðu það grátt.
Fjölskyldufaðirinn undir þaksgegginu þar sem þrastarkrútt reyndi ítrekað að hreiðra um sig.
Þau hjón voru nánast á leiðinni að byggja sumarhús á lóð í Fljótshlíðinni þegar þau sáu húsið auglýst fyrir tilviljun og voru að vonum mjög glöð. „Við byggjum kannski bara seinna. Systkini pabba eiga bústaði í Eyvindarmúla. Það er búið að skipta jörðinni og selja Eyvindarmúla eystri. Eyvindamúli vestri er stórt svæði og verður áfram í eigu ættarinnar.“
Umhverfið er ansi fallegt og Njóla verulega lunkin að taka fallegar myndir.
Njóla dyttar að gróðrinum og gróðursetur tré sem verða sjálfsagt skjól í framtíðinni.
Aðalrýmið í aðalhúsinu. Verulega notalegt og hlýlegt.
Séð inn í gestahúsið. Móðurafinn Binni í Gröf uppi á vegg og sumarhúsið heitir í höfuðið á skipinu hans, Gullborginni.
Þar er gufa og allt!
Með því að kaupa lóðina og sumarhúsið urðu Njóla og Þórarinn sjálfkrafa félagar í félagi um Múlakot, en það félag á flugvöllinn og flugskýlið og rekur það allt saman. Það hefur einnig umsjón með vegum á svæðinu og stendur að sögn Njólu mjög vel. „Við greiðum fasteignagjöldin til sveitarfélagsins Rangárvallasýslu eystri. „Það er lítil sem engin þjónusta þrátt fyrir háan fasteignaskatt. Við þurfum t.a.m. að fara með ruslið á Hvolsvöll og stærri einingar á flokkunarstöð á Hellu. En það er búið að koma í ljós að sveitarfélagið á að sjá um rotþróna hérna og eru búnir að vera á leiðinni í þrjú á að ganga í þau mál,“ segir Þórarinn. Njóla bætir við að það hafi orðið alveg svakalega snjóþungt sl. vetur í Fljótshlíðinni og þau hafi þurft að fá einn bóndann á svæðinu til að hjálpa sér að ryðja. Snjórinn hafi náð um tvo metra yfir grindverkið.
Fjölskyldunni þykir ekki síðra að dvelja þarna á veturna.
Gríðarleg náttúrufegurð þarna og heillandi sjóndeildarhringur.
Dímon skartar sínu fegursta í kvöldsólinni.
Eftir að þau keyptu bústaðinn tóku þau til hendinni og máluðu m.a. allt að utan og hafa nostrað við allt og gert að sínu, enda verulega fallegt og hlýlegt um að líta hjá fjölskyldunni. Þórarinn segir að húsið hafi verið byggt á stöplum í Reykjavík og flutt hingað 2007. „Árið 2010 var gistihúsið svo byggt á steyptum grunni. Við erum að að fara að setja upp varmadælu og gólfhita því það getur verið kalt hér á veturna. Við ætlum því líka að fá okkur kamínu,“ segir Þórarinn. Njóla bætið við: „Það er ekki síður yndislegt að vera hér á þeim árstíma og við höfum verið hér bæði um jól og áramót og skreytum þá allt.“
Allt skreytt fallega um jól og áramót.
Skaflarnir náðu hátt yfir grindverkið í vetur, eins og sjá má.
Þorbjörg Emelía er dugleg að hjálpa til.
Fyrir utan það sem upp er talið segja Njóla og Þórarinn að það sem heillar mest við að vera á þessum stað sé sjóndeildarhringurinn, sólin frá upprás til sólseturs og svo eru þau mikið hálendisfólk, með tvo jeppa, og fara mikið inn í Mörk, Emstrur og Hvanngil og á fleiri staði á hálendinu. „Þetta er líka mjög vinsælll staður og gott samfélag hér. Um verslunarmannahelgina er hér fjölmenn árleg flughátíð með brennu, hoppukastala, opnu flugskýli, hljómsveit og mikið um dýrðir,“ segir Njóla að endingu og ljómar af tilhlökkun.