Fara í efni
Fréttir

Bowie-aðdáandi táraðist við að sjá vegginn óvænt

Björn við Bowie-vegginn góða. Mynd aðsend.
Björn við Bowie-vegginn góða. Mynd aðsend.

Um helgina verður blásið til 5 ára afmælis Bowie-veggjarins á Akranesi með tónleikum og listsýningum. Skagamaðurinn og áhugaljósmyndari með meiru, Björn Lúðvíksson, eða Bjössi Lú eins og hann er jafnan kallaður, er einn þeirra sem hratt af stað þeirri framkvæmd að mála þennan heiðursvegg. Samhliða afmælinu verður sýning í gamla Landsbankahúsinu við Akratorg og tribute-tónleikar niðri á Breið, hvoru tveggja rétt hjá Akranesvita. Við heyrðum í Bjössa, sem var að detta í sumarfrí akkúrat í dag. 

„Áhugi minn á David Bowie kviknaði þegar systir mín keypti plötu um 1970 og ég vandist tónlist hans upp frá því. Ég keypti sjálfur nokkrar plötur til að byrja með, þá fyrstu 1977, sem er úr svokölluðum Berlínar-þríleik Bowie (1976-1979); plöturnar Low, Heroes og Lodger,“ rifjar Bjössi upp. Þegar Bowie lést árið 2016 segir hann að var farið að mála heiðursveggi um goðið víða um heim; sá frægasti í Brixton á Englandi. „Ég sá einnig einn slíkan í Jersey í Bandaríkjunum sem er á vegg á 18 hæða blokk. Við ákváðum að vaða í þetta árið 2017 og hafa vegginn á Akranesi. Ég málaði hann að mestu leyti á þremur mánuðum með fullri vaktavinnu í álverinu á Grundartanga. Halldór Randver Lárusson, mikill Bowie-áhugamaður og grafískur hönnuður, útfærði þetta allt og málaði aðeins með mér. Formið er hans.“

Veggurinn góði. Mynd aðsend.

Bjössi segist bæði hafa hitt ferðamenn og heyrt af slíkum sem ekið hafa niður aðalgötuna, jafnvel miklir aðdáendur Bowie. „Ég heyrði af því að einn slíkur setti mynd af veggnum á Instagram og sagðist hafa tárast við að sjá hann svona óvænt.“ Bjössi er afar listrænn og hefur m.a. málað fánasteina við Akranesvita sem voru mjög vinsælir og einnig málaði ásamt fleirum ruslafötur í bænum í fyrra í tengslum við árlega Vökudaga. Hann segist ekki vera mikilll tónlistarmaður sjálfur en mikill áhugamaður og stofnaði á sínum tíma Facebook síðuna Tónlist á Akranesi, þar sem hann hefur kynnt og vakið athygli á tónlistarfólki af Skaganum, viðburðum þess og útgáfu. „Fólki er frjálst að setja eitthvað þar inn að vild!“  

Hljómsveitin Lizt. Mynd af Facebook síðu hennar. 

Afmælishátíðin verður dagana 16. og 17. júlí. Sýningin verður í Landsbankahúsinu við Akratorg þar sem Bowie-aðdáendur sýna muni sem þeir hafa keypt, s.s. plötur, myndir og hvaðeina. Þar geta aðdáendur hist og rætt saman um goðið sitt og Heiða Eiríks söngkona mun stíga á stokk á laugardeginum. Sama kvöld mun Bowie-tribute-hljómsveitin Lizt halda sína tónleika á Breið. Lizt skipa þeir Róbert Marshall, Þór Freysson, Hersir Sigurgeirsson, Gunz A La Tomma og Kristinn Gallagher. Hljómsveitin flytur á þriðja tug laga sem spanna feril David Bowie. Einnig er Bjössi búinn að tengja saman nokkra listamenn á Akranesi sem ætla að gera mynd af Bowie, hvert með sinni tegund af list sem dreift verður víða um bæinn, s.s. í gluggum verslana. Hægt er að fylgjast dagskránni á Facebook síðu hátíðarinnar.


Viljið þið ná til sumarhúsaeigenda með viðburðum eða benda á sniðuga afþreyingu? Hafið endilega samband hér.