Fara í efni
Afþreying

Kátt í Kjós í fimmtánda sinn

Litríkar heyrúllur eru meðal einkenna Kátt í Kjós. Bakgrunnsmynd/Kjósarhreppur og viðmælandinn Helga…
Litríkar heyrúllur eru meðal einkenna Kátt í Kjós. Bakgrunnsmynd/Kjósarhreppur og viðmælandinn Helga inn á.

Hátíðin Kátt í Kjós fer fram á morgun, laugardag, í 15. sinn. Skapast hefur falleg hefð í kringum hátíðina í þessu 230 íbúa sveitarfélagi og nýtur hún mikilla vinsælda heimafólks sem og gesta sem koma víða að. Nýlunda í ár verður kvöldvaka með varðeldi þar sem trúbadorinn Arnar Friðriksson heldur uppi stemningu með samsöng og gleði. Við heyrðum í Helgu Hermannsdóttur, sem er bæði formaður undirbúningsnefndar hátíðarinnar og meðlimur í kvenfélagi Kjósarhrepps. 

Ýmislegt fjölbreytt til sölu. Mynd aðsend.

„Fyrst um sinn var hátíðin vettvangur til að sýna fólki hvað er í boði í Kjósinni, svo sem matvælaframleiðsla og bændur buðu heim og fleira því fyrir 15 árum voru ekkert margir sem vissu um ýmsa starfsemi hér. Þetta hefur þróast og stækkað og er frekar hefðbundið í ár. Það sem er nýtt er kvöldvaka í Félagsgarði, sem flestir þekkja undir heitinu Félagsheimilið Drengur, þar sem trúbbi.is skemmtir.

Einnig verður opið inn í Félagsgarð og léttar veitingar seldar þar og verður alltaf hægt að færa kvöldvökuna þangað inn ef veðrið verður ekki gott,“ segir Helga, en sú staðsetning verður einnig miðpunktur hátíðarinnar því yfir daginn verður þar einnig markaður það sem ýmislegt verður til sölu og skemmtilegt í boði fyrir fyrir börn á öllum aldri, s.s. andlitsmálum, Ísbíllinn, Blaðrarinn, stígvélakast, reiptog, rúlluskreytingakeppni svo eitthvað sé nefnt. Á dagskránni verður einnig ýmsilegt sem dreifist víðar um Kjósina. Kominn er út bæklingur með allri dagskrá hátíðarinnar og hann má finna hér.  

„Markaðurinn hefur ærlega fest sig í sessi og margir sem bjóða sínar vörur til sölu hafa komið hér á hverju ári. Hér verður seldur reyktur fiskur, alls kyns fallegt handverk, vinsæla vörumerkið Óli Prik með barnafatnað og margt fleira. Kvenfélagið verður líka með kökubasar þar sem boðið verður upp á hnallþórur, kleinur og alls kyns gómsætt heimabakað, gamaldags með dúkum og kósýheitum. Allur ágóði af sölu bakkelsins rennur í að styrkja gott málefni.“

Veitingastaðurinn Kaffi Kjós var áður hluti af þessu öllu en ekki rekstur þar núna og staðurinn til sölu. Hjónin sem ráku Kaffi Kjós reka hins vegar ferðaþjónustu og gott tjaldsvæði á Hjalla þar sem áhugasamir geta dvalið yfir nóttina í sveitasælunni.