Fara í efni
Fréttir

Mikil eftirspurn eftir sumarhúsum til leigu á Íslandi

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator. Mynd/OBÞ
Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator. Mynd/OBÞ

Um 150 sumarhús á Íslandi eru leigð til þýskumælandi ferðamanna í gegnum fyrirtækið Viator sumarhús sem stofnað var fyrir 20 árum. Mikil eftirspurn er eftir sumarhúsum fyrir þennan markað og alltaf vantar fleiri hús á skrá. Við kíktum til framkvæmdastjórans og annars tveggja eigenda, Péturs Óskarssonar, til að forvitnast um hvernig þessi starfsemi gengur fyrir sig og ávinningur sumarhúsaeigenda. Meðeigandi Péturs er Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fyrir 25 árum stofnuðu Pétur og Bjarnheiður fyrirtækið Katla Travel með aðsetur í Munchen í Þýskalandi, en það hefur síðan þá verið stór aðili í sölu Íslandsferða í Þýskalandi og Austurríki. „Við fórum mikið á stórar neytendasýningar og fengum ítrekað fyrirspurnir um sumarhús á Íslandi til leigu eins og þekktist annars staðar í Skandinavíu. Það var vonlaust að selja fjölskylduferðir til Íslands því gisting var svo dýr. Á einni ráðstefnu var dönsk sumahúsamiðlun og ég talaði oft við eigandann og spurði hvort hann vildi ekki koma með miðlunina einnig til Íslands. Rétt eftir sl. aldamót seldi hann miðlunina keppnautum sínum og bauð mér að fá conceptið hjá sér um hvernig þetta virkar allt saman. Í kjölfarið kom hingað til lands starfsmaður frá honum til að hjálpa okkur við að koma þessu af stað. Áður hafði eina slíka starfsemin verið Íslensk sumarhús í Hveragerði sem fór á hausinn og við settumst niður með framkvæmdastjóranum þeirra og lærðum helling,“ segir Pétur.

Lögð er áhersla á að sumarhúsin til útleigu séu með persónulegum og fjölskyldulegum blæ. Mynd af vefsíðunni Viatis.is

 

Til að byrja með höfðu þau 15 til 20 hús skrá í eigu Íslendinga. „Þetta hefur alltaf verið sama conceptið; við leigjum sumarhús af íslenskum fjölskyldum sem þykir vænt um að dvelja í og njóta. Það er þessi persónulegi sjarmi sem við leitum eftir. Hann heillar markhópinn okkar sem eru Þjóðverjar, Austurríkismenn og Svisslendingar. Þetta er upp til hópa fyrirmyndarfólk sem bæði gengur vel um og þrífur vel eftir sig.“



Leigjendur á vegum Viator sumarhúsa eru uppi til hópa mjög snyrtilegt og reglusamt fólk sem gengur vel frá eftir sig. Mynd af Viatis.is

 

Starfsfólk Viator sér um öll samskipti við gestina, allar bókanir og ef upp koma kvartanir og er með neyðarsímanúmer. Lyklabox eru á húsunum og þjónustumiðstöðvar á Akureyri, Egilsstöðum og Keflavík þar sem fólk kemur til að tékka sig inn og skrifa undir samning. „Þar fær fólk einnig lín í poka með sér sem saman stendur af rúmfötum fyrir einn, handklæðum, viskustykkum og tuskum og slíku. Hver og einn gestur er þannig með sitt eigið lín og getur tekið það með sér ef það fer í fleiri sumarhús á okkar vegum. Ferðamenn þrífa svo sjálfir eftir sig og skila líninu í þjónustumiðstöðvarnar.“

Fyrirkomulagið sé með einfalt og þægilegt viðmót fyrir sumarhúsaeigendur á síðunni Viatis.is því þeir tengi sig inn í kerfi Viator og sjái þar hvað er komið af bókunum, hvernig greiðslur eru, hvað á eftir að fá greitt, hvort einhver er í húsinu o.s.frv. „Sumir hafa alveg opið með hvenær má bóka en svo þegar fólk sér að þetta fer fljótlega að uppbókast þá fer það að láta vita að það vill kannski sjálft vera einhverja daga eða tímabil og skrá slíkt þá með lágmarks 14 daga fyrirvara.“

Heitur pottur er mikill kostur. Mynd af Viatis.is

 

Bókunartímabil segir Pétur að hefjist yfirleitt á haustin og mikið sé verið að spyrja um laus hús fyrir árið 2023. „Fólk vill alls ekki bíða með að bóka gistingar og helst marga mánuði upp í ár fram í tímann. Um 150 hús eru á skrá víða um landið og erum alltaf að leita að fleiri húsum. Sérstaklega eftir að 90 reglan er kom sem hámarkar útleigu niður í 90 daga á ári. Við erum sterk á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi, með okkur hús á Vestfjörðum en vantar alltaf meira á skrá á Austulandi. Mesta eftirspurnin er jafnframt á Suðurlandi og Vesturlandi.“

Undir lokin tekur Pétur sérstaklega fram að langflestir sem byrji að vinna með Viator halda því áfram árum saman, fáir hætti og jafnvel næstu kynslóðir taki við. „Þegar sumarhús á skrá hjá okkur eru seld þá fylgir samningurinn við okkur með og nýir eigendur hafa kosið að halda áfram. Þetta hefur gjarnan hjálpað til við sölu á sumarhúsum því tekjurnar af leigu hafa hjálpað eigendum að mæta kostnaði sem fylgir því að eiga sumarhús og tækifæri til þess að hafa tekjur af eignum sínum meðan þær stæðu annars ónotaðar,“ segir Pétur að endingu.

Vefsíða Viator þar sem áhugasamir súmarhúsaeigendur geta nálgast allar mikilvægar upplýsingar