Fara í efni
Framkvæmdir

Vinir í 50 ár með bústaði á sama stað

Jónas Marteinsson, Karl Taylor og Þórður Bergmann Þórðarson í góðru stundu. Þær eru orðnar ansi marg…
Jónas Marteinsson, Karl Taylor og Þórður Bergmann Þórðarson í góðru stundu. Þær eru orðnar ansi margar í tímans rás. Mynd/OBÞ

Í landi Valbjarnarvalla í Borgarfirði, nánar tiltekið í Lönguhlíð, er sumarhúsabyggð sem einkennist af svokölluðum A-bústöðum. Fyrstu bústaðirnir voru byggðir þar seint á 7. áratug síðustu aldar og svo bættust smám saman fleiri við, langflestir á 8. áratugnum, og eru þeir nú vel á þriðja tug. Sumarhúsaeigendur í Lönguhlíð þekkjast orðið vel og eru saman í félagi sumarhúsaeigenda. Við kynntum okkur sögu þriggja vina og fyrrum samstarfsfélaga, en þeir eiga sinn hvern bústaðinn á reit í hlíðinni sem reyndar eru orðnir ágæt þyrping, en voru áður félagsbústaðir slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli.  

Ústýnið úr hlíðinni er ekki amalegt! (mynd/OBÞ)

Vinirnir heita Jónas Marteinsson, Karl Taylor og Þórður Bergmann Þórðarson, en þeir unnu saman sem slökkviliðsmenn hjá Varnarliðinu frá 8. áratugnum og vel fram á þessa öld. Bústaðirnir voru byggðir á árunum 1970-1971 eftir að staðsetningin hafði verið valin, eftir töluverða leit, út frá því að fá land sem lægi að vatni og væri með hjarni og í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavík. Trésmiðja Sigurjóns og Þorbergs á Akranesi skilaði fullsmíðuðum húsum í júní 1971 eftir að undirstöður fyrir húsin höfðu verið gerðar af bræðrunum á Valbjarnarvöllum, Sigurjóni og Heiðari Jóhannessonum, sem einnig girtu af landið, lögðu veg og vatn að húsunum; að ógleymdri brú á þeim eina stað sem þurfti til að komast fyrir Gufuá. 

Nefnd sem skipuð hafði verið til að koma þessu öllu á legg, Haraldur Stefánsson, Stefán Eiríksson og og Þorsteinn Hraundal, annaðist allan útbúnað og innkaup á innanstokksmunum, með góðri aðstoð annarra félagsmanna sem einnig hjálpuðu til við allan undirbúning. Allir lögðust á eitt og 10. júlí 1971 voru bústaðirnir tilbúnir til notkunar. Í maí 1972 héldu 15 framtakssamir sjálfboðaliðar úr slökkviliðinu í vinnuferð í Borgarfjörð og klárað það sem klára þurfti. Leiktæki fyrir börn bættust við síðar. Jónas gaf okkur leyfi til að birta myndir frá sögu sinnar fjölskyldu og sumarhúss þeirra Litlakots. 

Jónas ásamt m.a. sonum sínum á 8. áratugnum á göngu um svæðið. 

Þórður og Olga Björt dóttir hans á svipuðum tíma og búa til bílaplan fyrir ofan húsin.

Aðsókn í bústaðina minnkaði með nútímalegri kröfum 

Þeir Jónas, Karl og Þórður voru allir meðal þeirra sem voru ötulastir við að bústaðina frá byrjun og einnig virkir í sjóðum og félagi slökkviliðsmanna „Aðal vinnan í þessum sjóðum voru sumarbústaðirnir á Valbjarnarvöllum. Við í stjórn sjóðanna sáum um alla útleigu, rekstur og viðhald á þeim. Sem betur fer voru félagar mínir alltaf tilbúnir að koma í vorferðirnar sem voru farnar seint í maí eða byrjun júní. Er fram liðu stundir fór aðsóknin í bústaðina heldur minnkandi og kom þar margt til. Við fórum að ferðast meira til útlanda, þeir þóttu of litlir, vantaði heitavatnspotta, þeir voru of langt í burtu og svona ýmislegt,“ rifjar Jónas upp og bætir við að árið 1992 reisti félagið svo nýjan bústað á nágrenni Flúða í Hrunamannahreppi og þar með datt aðsóknin á Valbjarnarvelli mikið niður. „Þó voru við nokkrar forneðlur sem héldu tryggð við Valbjarnarvellina og vildu ekkert með nýja húsið hafa en ég notaði þó nýja húsið á veturna hin á sumrin“.

 

Jónas, Þórður og Karl fá sér smá brjóstbirtu á góðri stundu fyrir nokkrum árum í vinnuskúrnum. 

Vinirnir gera hæstu tilboð í bústaðina

Árið 1993 bauð RARIK 50% afslátt af heimtaugum á rafmagni til sumarhúsa og var ákveðið í samráði við Rarik að rafvæða bústaðina á Valbjarnarvöllum og segir Jónas að sem betur fer hafi það verið gert því annars sé nokkuð víst að bústaðirnir hefðu verið seldir.  „Þá datt okkur hjónum í hug að kaupa eitt húsanna  og byrjuðum strax næsta vor að taka til hendinni og alltaf var nóg að gera við almenna tiltekt og þrif. Í fyrstu vorum við í sambýli með félögum mínum í slökkviliðinu en árið 1998 var samþykkt á fundi að selja öll þrjú húsin á Valbjarnavöllum. Sem betur fer var byrjað á að bjóða slökkviliðsmönnum að gera tilboð í húsin og yrði hæst-bjóðanda seld á því verði sem um semdist. Ef það gengi ekki færu þau í almennt söluferli. Það fór svo að tveir félagar mínir hrepptu húsin, Karl Taylor miðhúsið og Þórður Þórðarson það neðsta. Okkur létti mikið við þessi tíðindi að þau skyldu lenda hjá einhverjum sem við þekktum. Við þessa breytingu á eignarhaldi hófst nú mikil uppbygging á svæðinu og tókum við allir þátt í því bæði saman og í sitthvoru lagi,“ segir Jónas ennfremur. 

Ungu kynslóðirnar una sér vel við vel bálstæðið sem vandlega er varið af fyrrum brunavörðunum.

Hluti þyrpingar Þórðar og fjölskyldu. Mynd/OBÞ

Meðfylgjandi myndir sýna breytingar sem hafa átt sér stað á sumarhúsi Jónasar í gegnum árin: 

Upprunaleiki húsanna sést vel hér og vinna hafin við fyrstu stækkunina - að setja kvist. Hilmar, sonur, og Ásgeir tengdasonur hjálpa til. 

Hérna eru synirnir Hilmar og Marteinn og mágurinn Þorvarður að stækka bústaðinn með því að bæta við stórum kvist. 

Í millitíðinni var fyrsta heita pottinum komið fyrir. Jónas og Hilmar ásamt barnabörnum Jónasar. 

Miklar framkvæmdir fóru svo í að stækka eldhúsið norðan megin. 

Hilmar inni í nýja eldhúsinu. 

Stórglæsilegt Litlakot og umhverfi að sumri til. 

Hér má sjá þyrpinguna við Litlakot Jónasar og fjölskyldu úr dróna að vori til. 

Hér sést svo umhverfi húsa Þórðar og fjölskyldu um hásumar og leikvöllurinn við hliðina sem er fyrir öll börn sem þarna koma.  Mynd/OBÞ

Fjölskyldur vinanna og næstu kynslóðir hafa í tímans rás mikið dvalið í Lönghlíð, enda komu börn þeirra sem fædd eru upp úr 1970, allt niður í nokkurra mánaða í sína fyrstu dvöl. Og barnabörn og barnabarnabörn hafa bæst í hópana. Eftir að uppbygging varð á svæðinu í kringum hvern bústað fyrir sig eru þetta orðin nokkurs konar þrjú lítil þorp þar sem má sjá gestahús, baðhús og leikkofar fyrir börnin, enda fjöldinn orðinn meiri en aðalhúsin geta rýmt. Einnig hefur kvistum verið bætt við aðalhúsin og þau stækkuð í annan eða báða enda. Þá hefur heitum pottum verið bætt við við tvo bústaðina af þremur. Einnig hafa fjölskyldurnar í gegnum áratugina gróðursett þúsundir trjáa innan um lágvaxið birkið, móann og mýrarnar sem áður einkenndu svæðið. Því er skógurinn orðinn þéttur og mikil veðursæld þarna og náttúrufegurð.