Fara í efni
Framkvæmdir

Paradís í Hraunborgum

Rekstrarstjórinn Yngvi Ómar tekur gestum opnum örmum eins og sjá má.
Rekstrarstjórinn Yngvi Ómar tekur gestum opnum örmum eins og sjá má.

Í Grímsnesinu, umvafnar hrauni og gróðri, eru hinar margrómuðu Hraunborgir. Margir eiga þaðan yndislegar minningar tengdar æskuárum með foreldrum og systkinum í tjöldum, fellihýsum, hjólhýsum eða sumarbústað. Áratugum saman hefur áherslan í Hraunborgum verið á fjölskyldufólk þótt allir aðrir séu að sjálfsögðu velkomnir. Við hittum Yngva Ómar Sighvatsson sem sér um daglegan rekstur og skoðuðum okkur um.

Í maí síðastliðnum tók Gunnar Björn Gunnarsson við rekstri Hraunborga úr höndum hjónanna Drífu Bjarkar Linnet og Haraldar Loga Hrafnkelssonar heitins. Þau höfðu keypt reksturinn af fyrrverandi landeiganda árið 2018 og í kjölfarið hækkað töluvert þjónustustigið á svæðinu, m.a. með því að opna bar og veitingastað.

Drónamynd af þjónustu- og tjaldsvæðinu.

 

Planið að stækka enn meira 

„Við erum að þreifa okkur áfram með að bæta þjónustuna á þessum yndislega stað enn betur. Byrjuðum á að stækka tjaldsvæðið og búnir að setja tvær nýjar flatir neðst við trjárjóðrið. Og eina laut innst í einu rjóðrinu. Við tókum líka sundlaugina í gegn frá A til Ö og máluðum hana,“ segir Yngvi, en hann hefur bakgrunn í eldamennsku og markaðssetningu og bretti því einmitt upp ermar með því að gera nýjan matseðil sem enn meira er í lagt. „Planið framundan er að stækka þetta enn meira og gera meira fyrir staðinn, jafnvel gera smáhýsi í viðbót og stækka eldhúsið. Fara í áttina að auknum ársrekstri. Hér var alltaf einungis opið yfir hásumarið.“

Ýmsir möguleikar geta skapast við að hafa reksturinn allt árið og nefnir Yngvi að þá verði t.d. hægt að bjóða upp á lága leigu á stæðum fyrir hjólhýsi í staðinn fyrir að fólk borgi mikla fjármuni fyrir að geyma þau sín einhvers staðar innandyra. „Fram að áramótum þá geta eigendur komið hingað um helgar og notað þjónustunnar, veitingastaðarins og heitu pottanna. Við viljum einnig bjóða upp á að leigja húsið út til hópa sem kæmu til og frá með rútum, jafnvel fyrir sundlaugapartý, með tónlist og stemningu. Það er ekki nema 50 mínútna akstur hingað frá Reykjavík.“

Meðal annars sem Gunnar Björn og Yngvi hafa gert innanhúss er að fjölgað stólum og borðum og fleiri geta fleiri setið úti en áður og þar eru komnir hitarar. „Það er líka komnir flatskjáir til að horfa á íþróttir á mörgum rásum og það hefur slegið í gegn og fólk fengið sér öllara og horft á boltann, m.a. EM kvenna, íslenska og enska boltann. Bjórinn er líka ódýr, bara þúsundkall á krana. Eftir að við breyttum matseðlinum koma líka sumarhúsaeigendur meira hérna við,“ segir Yngvi.

Um Verslunarmannahelgina verður grillpylsupartý í samvinnu við sumahúsafélagið á svæðinu og Yngvi leggur áherslu á að rekstraraðilarnir líti á sig sem mikilvæga þjónustuaðila við félagið. „Þau eru með Facebook síðu og þar kom ma. fram umræða um vöntun á hjartastuðtæki á svæðinu en við erum með slíkt splunkunýtt sem stendur öllum til boða sem þurfa á að halda. Við fórum á heljarinnar námskeið tengt því og slysavörnum og kunnum því grunninn í skyndihjálp ef á þarf að halda.“

Hin stórgóða hljómsveit Swiss mun halda uppi stuði í Hraunborgum á laugardagskvöld.

Tjaldsvæðið er mjög skemmtilegt og gróið og Yngvi segir að ef Hraunborgir séu bornar saman við mörg önnur tjaldsvæði, þá eru það oft svæði mep einni flöt, ekkert gróið í kring og lítið skjól, auk þess sem ekkert skipulagt leiksvæði er fyrir börnin. „Hér er svæðið á sex flötum og í lautum og stórt leiksvæði. Það er því einstakt á margan hátt. Hér er líka sérstaklega lítið af lúsmýi vegna þess að hér er ekki stöðuvatn eða mýri, sem eru kjörsvæði fyrir lúsmýið að klekja út eggjum. Við finnum lítið sem ekkert fyrir því. Fólk hefur m.a.s. flúið hingað frá stöðum þar sem mikið lúsmý hefur verið.“

Í Hraunborgum eru um það bil 270 bústaðir, að mestu hús í einkaeigu og nýbúið er að samþykkja deiliskipulag fyrir 60 hús í viðbót í hverfi sem er í uppbyggingu. „Hraunborgar-golfvöllurinn hér rétt við er líka gríðarlega vinsæll og talinn einn sá besti 9 holu par 3 völlur á landinu. Það er nýbúið að gera hann allan upp. Golfklúbburinn er einnig stórt og gott samfélag og félagsmenn koma oft hingað með verðlaunaafhendingar eftir mót. Við viljum líka gera allt fyrir þau.“

Yngvi segir að í Hraunborgum sé ákveðið samfélag af krökkum og vinátta verður til. Fólk sé oft í langtímaleigu á góðu verði og kemur öðru hverju. „Það kostar 4500 sólarhringurinn, sama hvort um er að ræða tjald, fellihýsi eða hjólhýsi. 30 daga leiga er 1700 kr sólarhringurinn og margir hoppa á það. Um helgina verður dagskrá í Hraunborgum (sjá nánar ef smellt er hér á undan) og Yngvi segir að ávallt sé lögð mikil áhersla á afþreyingu fyrir börn. Ef börnin vilja koma, þá koma foreldrarnir!“