Rómantík með pönk-ívafi í Dagverðardal
Í Dagverðardal í Skutulsfirði (Ísafirði) eiga hjónin Heiðrún Björk Jóhannsdóttir og Lúther Ólason um 70 fermetra sumarbústað, en þau rifu gamlan og ónýtan bústað sem var á sömu lóð sem þau keyptu árið 2016. Þau eiga bæði uppruna að rekja til Vestfjarða en búa í Garðabæ.
„Ég held að staðurinn hafi valið okkur frekar en við staðinn,“ segir Heiðrún og ljómar. Ekki hafi verið á dagskrá að kaupa sumarbústað þótt þau hafi oft rætt að það væri bæði gott og gaman að eiga íbúð eða íverustað á Ísafirði. „Við gerðum samt ekkert í því en sáum svo bústað auglýstan í bæjarblaðinu, ákváðum að slá til og hikuðum hvergi!“ Heiðrún er fædd og uppalin á Ísafirði og Lúther ólst upp á Flateyri frá unglingsaldri. Öll fjölskylda Heiðrúnar býr á Ísafirði og þau hjón eiga marga vini á svæðinu.
Gamla húsið á þeim tímapunkti sem þau keyptu það fyrir 6 árum.
Sumarhúsið sem þau keyptu var í raun gamalt og ónýtt. „Það var því miður orðið svo fúið að það var engin leið að bjarga því og svo hafði orðið vatnstjón veturinn á undan svo að komin var bleyta í allt í ofanálag. Því var ekkert annað í stöðinni en að rífa húsið. Það var voða krúttlegt og lítið, týpískt sumarhús, panilklætt með blómagardínum og grónum garði,“ segir Heiðrún og bætir við að þau hafi nýtt húsið sem vinnuskúr og kaffistofu á meðan þau byggðu gestahúsið og svo rifu þau það sumarið 2019.
Ávallt er líf og fjör í kringum heimilisfólkið. Þessi mynd er tekin eina verslunarmannahelgina.
Takið eftir yfirhalningunni sem þetta borð er búið að fá.
Framkvæmdirnar á svæðinu hófust því með því að þau byggðu fyrst lítið, tæplega 10 fermetra gestahús á meðan þau söfnuðu í baukinn fyrir stærra húsi. „Það var svona á meðan við vorum að kynnast staðnum og ég vil meina að að við byrjuðum á réttum enda; fyrst lítið hús til að gista í og svo heitur pottur til að hvíla í lúin vinnubein. En svo fengum við Hugi sonur okkar tækifæri síðasta vetur til að vera á Ísafirði frá áramótum. Ég tók að mér afleysingar sem textílmennt kennari við grunnskólann á Ísafirði og Hugi fékk að fylgja með og kláraði 9. bekk sl. vor. Svo var hann svo glaður í skólanum, enda vel settur með fullt af góðum vinum og spennandi áhugamálum að við höfum ákveðið að vera aftur næsta vetur og klára grunnskólann. Á meðan ætla ég að nýta tímann í hönnun og vöruþróun og halda áfram þar sem frá var horfið í mínu litla hönnunarfyrirtæki, Ísafold Design, ásamt því að dútla við það sem enn er óklárað í húsinu. Svo húsið er og verður vel nýtt!“ Hún er með vinnustofu í Íshúsi Hafnarfjarðari þar sem hún hannar og sauma leðurtöskur og fylgihluti, í bland við smá heimilislínu sem fer stækkandi með lækkandi sól.
Vinnustofa Heiðrúnar í Íshúsi Hafnarfjarðar, þar sem hún framleiðir ýmislegt.
Í þessu rými hannaði Heiðrún m.a. Hatara-galla á kasólétta Jóhönnu Guðrúnu söngkonu fyrir forsíðamyndatöku fyrir bæjarblaðið í Hafnarfirði árið 2019.
Myndirnar tók Ólafur Már Svavarsson, einnig í Íshúsi Hafnarfjarðar.
Fjölskyldan hefur verið að byggja húsið sitt síðan 2019 og risið aðeins hærra og húsið stærra en það gamla. „Við vildum alls ekki byggja stórt en samt nægilega stórt fyrir okkur þrjú með tveim litlum svefnherbergjum, góðu eldhúsi og alrými. Stóru börnin og gestir fara svo bara í gestahúsið þegar þannig liggur við.“ Húsið er í nýtísku-stíl en innblásturinn segir Heiðrún að komi samt sem áður frá gömlu húsunum í neðstakaupstað á Ísafirði, með smá nútíma-tvisti. „Við vildum samt hafa pínu gamaldags inni þannig að húsið myndi svolítið umvefja okkur með hlýju sinni. Niðurstaðan varð sú að panilklæða allt rýmið og mála í hlýjum grænum lit. Eldhúsið fékk bleikar flísar á móti grænni eldhúsinnréttingu. Við erum alveg óhrædd við liti og að blanda saman ólíkum litum og mynstri. Þegar mynd var komin á alrýmið áttuðum við okkur á að litaþemað er brauðterta! En þó mjög góð og falleg brauðterta,“ segir Heiðrún og skellihlær.
„Rýmin pönkast upp með gömlum og nýjum húsmunum og þar sem húsið er ekki stórt og rýmin frekar lítil ákváðum við að vera svolítið djörf. Það væri þá ekki mikið mál seinna meir að breyta. Baðherbergið er til dæmis veggfóðrað með mjög líflegu bláleitu veggfóðri á móti flísunum og við veggfóðruðum líka loftið. Gólfflísarnar eru svartar og hvítar í Marocco stíl svo þetta skapar svolítinn vá-faktor að koma þangað inn. En í heildina litið myndi ég segja að stíllinn væri rómantík með smá pönk-ívafi.“
Nauðsynlegt að hafa allar græjur við hendina!
Brauðtertu-litaþemað!
Stundum er hreinskilni best!
Að sjálfsögðu eru þau þarna allt árið um kring.
Villi kanína skellir sér í heilsubótargöngu.
Ekki verið að flækja hlutina fyrir sér. Bara ryðja og njóta!
Jólin 2021 í sveitinni.
Auk Heiðrúnar og Lúthers býr í húsinu sonurinn Hugi og aðrir ábúendur eru kanínan Villi og villihænurnar Erla og Illa, auk Boggu sem bætist brátt í hópinn, allar skírðar í höfuðið á ömmu og ömmusystrum heimilismóðurinnar. Fjölskyldan hefur verið afar dugleg að aka vestur undanfarin sex ár. „Við komum hingað nánast hverja helgi og nýttum öll frí til að vera hér. Enda erum við búin að vera að byggja og brasa hérna síðan við keyptum. Við fluttum loks inn í húsið fyrir síðustu jól og nutum jólanna hér með fjölskyldunni. Hér hjálpast líka allir að og við höfum fengið mikla og ómetanlega hjálp frá fjölskyldu og vinum,“ segir Heiðrún afar þakklát að endingu.
Heimilishænurnar.