Fara í efni
Framkvæmdir

Keyptu fyrrum félagsbústað í Húsafelli

Helgi og Arna við sumarhúsið sitt í Húsafelli.
Helgi og Arna við sumarhúsið sitt í Húsafelli.

Í notalegu rjóðri rétt hjá Hótel Húsafelli, nánar tiltekið Stórarjóðri, eiga hjónin Arna Arnórsdóttir leikskólakennari og Helgi Magnússon íþróttakennari 40 ára gamalt sumarhús sem þau keyptu sl. vetur. Húsið var áður í eigu Verkalýðsfélags Reykjanesbæjar. Við kíktum í heimsókn og fengum alla söguna, en þau eru smám saman að breyta og bæta.

Eins og sést er sumarhúsið þeirra á fallegum og grónum stað. 

 Svona leit bústaðurinn út þegar þau sáu hann auglýstan til sölu. 

Málning frá Slippfélaginu sem heitir Viðar var notuð til að gjörbreyta ásýnd hússins. 

Arna og Helgi segjast aðspurð alls ekki hafa verið að leita markvisst að sumarbústað þegar þau sáu þennan auglýstan. „Við höfðum haft auga á einum til sölu í Skorradal sem búið að var að mála að utan og aðeins að innan og virtist flottur. Ég er bara svo hvatvís og þegar ég sá þennan á sölu þá lét ég Helga strax vita því mér fannst hann spennandi,“ segir Arna og hlær og bætir svo við að Helgi hafi komið henni á óvart með að hringja í sig í vinnuna og segja sér að hann væri búinn að tala við Fasteignaland. „Við drifum okkur því bara fljótt í Húsafell til að skoða bústaðinn að utan og Helgi sá þá strax að klæðningin að utan var mjög vönduð með bandsöguðu efni. Okkur finnst líka flott svona þversum.“

Í kjölfarið pöntuðu þau skoðun og gerðu síðan tilboð á staðnum, sem var tekið. Húsið var áður í eigu Verkalýðsfélags Reykjanesbæjar og er 44 fm og svo 15 fm útihús sem margir gera að gestahúsi en þau nota sem geymsluskúr. „Við bara skrifuðum undir, borguðum og fengum húsið afhent 29. október 2021. Sömu helgi hentum við út meira og minna öllum húsgögnum. Við hirtum einn skáp sem er notaður fyrir málningardósir í skúrnum,“ segir Arna. Næstu vikur fóru svo í að viða að sér húsgögnum og margar ferðir eknar til og frá á Ford pallbíl, en þau búa í Hvalfjarðarsveit.

Eins og sjá má fer nýi viðarliturinn einstaklega vel við umhverfið. 

Samkvæmt gamalli breskri hefð merkja rauðar dyr að húsið sé skuldlaust. 

 

Allt niðurrif hófst þó ekki fyrr en í janúar á þessu ári og í vetrarfríi Helga í febrúar þá málaði hann fyrsta rýmið, svefnherbergið, með penslum. Hann er nefnilega mikill fagmaður í sér því að í þrjú eftir að hann kláraði íþróttakennaranámið í ÍKÍ að Laugarvatni vann hann hjá málarameistara og hefur ætíð síðan unnið með honum á sumrin þar til Arna fer í sumarfrí. Einnig hefur Helgi byggt eitt hús svo að hann kann ýmislegt til verka.

Myndir af húsinu að innan áður en tekið var til hendinni með að rífa niður og mála. 

Næsta skref var að mála baðið og síðan ganginn og holið. Eftir það var drifið í að parketleggja til þess að hjónin gætu fjárfest í almennilegu rúmi. „Á þessum tímapunkti sváfum við, gamla settið, á 1,20 stærð af dýnu á gólfinu. Klöngruðumst af henni á fætur á morgnana í margar vikur!“ rifjar Arna upp. „Þegar við svo tókum innréttinguna úr eldhúsinu gátum við svo klárað að parketleggja. Sem betur fer, því að við komumst að því þegar gamla gólfefnið var rifið upp að undir því var fúi. Í raun hægt að tæta fúann upp með höndunum. Við skiptum því um gólfplötu og vorum heppin með að hún var ekki stór. Við vitum um fólk sem hefur lent í því að þurfa að skipta um einangrun í öllu gólfi og veggjum. Það getur kostað margar milljónir með vinnu.“ Arna og Helgi komust nefnilega að fúanum þegar þau dvöldu í sumarhúsinu eina votviðrasama helgi í desember. „Það bara míglak hér inn og ég fékk bara áfall. Þannig að það var ekkert skrýtið að svona mikill fúi skuli hafa verið undir parketinu. Við settum Kährs vínylparket frá Birgisson og erum alveg hæstánægð með það.“

Þau taka þó fram að bústaðurinn hafi í alla staði litið vel út miðað við 40 ára aldur. „Við fengum múrarameistarann bróður minn til að skoða þetta vel með okkur,“ segir Arna. Kojurnar og rúmið voru föst og límd við panelinn á veggjunum, enda allt byggt á staðnum á sínum tíma upp á gamla mátann, líka í anddyrinu. „Þetta var allt klárlega mjög vel gert en jafn mikið vesen að rífa það niður með kúbeini og þurfa að reyna að vernda panelinn eins og hægt var,“ segir Helgi og Arna bætir við að vinnan við þetta sé búin að vera alveg mjög mikil. „Við ætluðum ekki að gera þetta allt svona hratt. Helgi málaði í júní, sprautaði þakið og málaði þakkantinn. Og síðan húsið að utan. Þegar við erum í sumarfríi, þá er hægt að gera meira. Stefnan var alltaf tekin á að taka húsið að utan í sumar og kaupa eldhúsinnréttingu. Svo þegar maður er komin í gírinn og vill nýta tímann, þá er erfitt að hætta. Núna í vetur tökum við bara einn vegg í einu. Ef hann ætti að verðleggja málningarvinnuna hingað til væri það lágmark 2 og hálf milljón.“

Heimilishundurinn Moli, en húsið heitir Molakot í höfuðið á honum. 

 

Aðspurð að lokum segja hjónin að húsið muni þau hiklaust nota allt árið. „Við komumst hingað á veturna líka því að við eigum Fordinn. Svo eru þeir duglegir að ryðja hérna og það er það góða við þennan stað vegna hótelsins. Þegar mestu skaflarnir eru getum við lagt við hótelið og labbað hingað. Stutt að fara,“ segir Helgi og tekur fam að gott sé að nota Facebook hóp sumarhúsaeigenda á svæðinu ef eitthvað kemur upp á. Þá sé málunum bara reddað og alls kyns tilkynningar þar sem séu nytsamlegar. „Þar var til dæmis tilkynnt um óvæntan varðeld í júní og við skelltum okkur og þekktum töluvert af fólki,“ segir Arna.