Býr í gamalli hlöðu með eigin skrúðgarð
Garðyrkjufræðingurinn Ólöf Ágústa Erlingsdóttir hefur starfað í yfir 20 ár hjá Garðheimum, allt frá því fyrirtækið hét Gróðurvörur sem var heildsala með afskorin blóm (stofnuð 1991). Hjónin og stofnendurnir Gísli Sigurðsson og Jónína S. Lárusdóttir opnuðu verslunina Garðheima 2. desember 1999 og Ólöf byrjaði á föndurloftinu sem þá var en lærði svo blómaskreytingar og færði sig yfir í blómabúðina. Hún leysti svo af í garðyrkjudeildinni eitt sumar og segir að þá hafi ekki verið aftur snúið.
Það kennir ýmissa grasa á útisvæði Garðheima
Íslendingar mega ekki gleyma að vegna skammrar sumartíðar þarf gróður aðstoð við að fá næringu þrisvar yfir sumarið.
Spurð um hvað hafi breyst mest í þessum bransa á 20 árum svarar Ólöf því til að fólk sé farið að átta sig á hversu notalegt er að vera úti í garði. „Garðarnir hafa verið stækkaðir og orðið meira afdrep fyrir fólk að njóta og rækta eigið grænmeti. Einnig er fólk orðið meðvitaðra um að plöntur hreinsa loftið innandyra. Mikil speki er að baki því að velja plöntur sem hreinsa loftið meira en aðrar og meira að segja hafa þau hjá geimvísindastofnuninni NASA rannsakað það sérstaklega.“ Auk garðyrkjudeildarinnar eru Garðheimar m.a. með veitingastað, gjafavörudeild, gæludýravörudeild og blómaskreytingar við öll tækifæri. „Það eru nokkrar öflugar sem eru lærðir blómaskreytar og það er nóg að gera allt árið, þótt topparnir séu þegar það eru útskriftir, mæðradagur, konudagur, 17. júní og fleira.
Ólöf Ágústa og eiginmaður hennar, Helgi Már Karlsson, keyptu heimili sitt, Reykjadal - Hlöðuna, fyrir 20 árum, nánar tiltekið 30. júní, af Starfsmannafélagi lamaðra og fatlaðra. „Þetta var hrossabeit og árið 1976 var hlöðu breytt í starfsmannahús fyrir félagið.Þetta hús var mikið notað á sínum tíma þegar samgöngur voru stopular. Starfsfólkið gisti í 6 herbergjum með kojum. „Við óskuðum eftir húsinu af fyrra bragði og það var illa farið og þarfnaðist viðgerða. Seljendurnir vildu líka fá annað hús nær starfsemi sinni.“ Þegar Ólöf og fjölskylda fluttu þangað voru á eins hektara jörðinni einungis sóleyjar og aspir sem foreldrafélag sumardvalaheimilisins hafði plantað á sínum tíma. „Við leyfum hestunum þeirra að bíta grasið á hluta jarðarinnar hjá okkur og þar með hjálpa þeir okkur líka.“
Það tók ungu fjölskylduna innan við ár að klára það sem klára þurfti til að flytja inn og þau hafa svo bætt og breytt í skrefum bæði innan- og utanhúss. „Matjurtargarðurinn er í mestu uppáhaldi hjá mér og við notum hluta garðsins sem skrúðgarð,“ segir Ólöf, sem er ýmsum hnútum kunnug á svæðinu því hún er sjálf alin upp í þessum dal. Foreldrar hennar, Erlingur Ólafsson og Helga Kristjánsdóttir, voru garðyrkjubændum og ráku Garðyrkustöðina Reykjadal þar sem þau framleiddu afskorin blóm áratugum saman.
Ólöf ásamt föður sínum heitnum og elstu dóttur sinni í garðyrkjustöðinni
Svona göngustígar eru á nokkrum stöðum í garðinum, í anda móður Ólafar.
Matjurðargarðurinn er í mestu uppáhaldi hjá húsmóðurinni.
Garðurinn er að sögn Ólafar síbreytilegur og í stöðugri þróun. „Það fer bara fer eftir því í hvaða stuði ég er. Ég á garðinn en garðurinn á ekki mig. Ég ræði hversu mikla vinnu ég vil leggja í hann. Sumarið er stundum seint á ferðinni og þá tekur garðurinn seinna við sér.“ Hún nýtir þekkinguna úr garðyrkjufræðinni í að gera sér verkin auðveldari, s.s. að vera dugleg við að týna illgresið á haustin. „Því betri verður garðurinn á vorin og viðráðanlegri. Það er því gott að ná því áður en farið er að sá fræjum. Sóleyjarnar láta mig vita hvenær ég á að kippa þeim upp, því þær sjást vel inni á milli hinna plantnanna. Ég er því ekki úti í garði að reyta arfa alla daga. Ég mæli einmitt sérstaklega með að fara út í garð þegar verðið er ekkert spes, klæða sig eftir veðri og hreinsa beðin. Nýta svo sólardagana í að njóta. Best að reita arfann þegar það er nýbúið að rigna og moldin laus í sér. Hann sprettur upp í bleytunni.“
Börnin eiga að sjálfsögðu sín garðhús.
Kirsuberjatré farið að bera ávöxt í gróðuhúsinu.